08.03.2009 16:29

Frábær viðurkenning

Eins og mörgum er nú kunnugt hlaut Hestamannfélagið Smári unglingabikar HSK fyrir árið 2009 og tók formaður félagsins, Guðni Árnason við þessari frábæru viðurkenningu á Héraðsþingi HSK sem fram fór 28 febrúar síðastliðinn.
Æskulýðsstarf hjá Smára hefur verið öflugt um árabil og er búið að vera einkar glæsilegt undanfarin ár. Mikill áhugi er hjá ungum knöpum sem eru að koma nýjir inn sem og hjá þeim eldri í að taka þátt í starfinu og hafa gaman af.
Krakkarnir hafa verið mjög virkir þátttakendur í þeim uppákomum sem haldnar eru innan félagsins og sem dæmi um þetta starf má t.d. nefna að farið hefur verið í helgarferð á hverjum vetri með krakkana og þá er með í för reiðkennari sem leiðbeinir þeim.
Haldnir eru reiðtygjadagar þar sem farið er yfir umhirðu reiðtygja og krakkarnir koma með hnakk og beisli að heiman og þrífa og bera á.

Fræðslukvöld eru haldin fyrir þennan aldurshóp og hafa þau verið vel sótt.
Félagið hefur stutt við bakið á börnum og unglingum sem keppa á landsmóti fyrir hönd félagsins og gaman er að fylgjast með góðum árangri þessarra einstaklinga.

Árlega er farið á æskulýðssýninguna Æskan og Hesturinn og hefur verið gríðargóð þátttaka í þeim ferðum.
Í vetur var svo byrjað að bjóða börnum og unglingum upp á kennslu í hestamennsku í skólunum og verður gaman að sjá hvernig það verkefni þróast.
Þessi viðurkenning er afrakstur frábærs æskulýðsstarfs sem vonandi heldur áfram að blómstra um ókomin ár og getum við verið mjög stolt af þessum frábæra árangri.Flettingar í dag: 172
Gestir í dag: 53
Flettingar í gær: 1738
Gestir í gær: 65
Samtals flettingar: 2017037
Samtals gestir: 290028
Tölur uppfærðar: 19.10.2019 07:50:55